Veglegar viðurkenningar veittar afburðanemendum í íslenskunámi á aðalfundi Vinafélags Árnastofnunar
Á aðalfundi Vinafélags Árnastofnunar, sem haldinn var 24. apríl, síðasta vetrardag, veittu félagið tveimur afburðanemendum í íslenskum
fræðum viðurkenningu fyrir árangur í námi. Með þessum viðurkenningum vill
félagið undirstrika mikilvægi þess að nám í íslenskum fræðum sé í senn mikils-
og eftirsóknarvert og rannsóknir á háskólastigi á íslenskum bókmenntum og
málfræði séu og verði áfram nauðsynlegar undirstöður íslenskrar menningar.
Verðlaun fyrir árangur í íslenskum bókmenntum hlýtur Xinyu Zhang sem nú hefur tekið upp nafnið Halldór.
Halldór stundar MA-nám í íslenskum bókmenntum. Hann er fæddur í Kína en kom til Íslands til að læra íslensku sem annað mál. Hann er nú að skrifa meistararitgerð sína um höfundarverk Fríðu Á. Sigurðardóttur og stefnir á doktorsnám í íslensku. Halldór hefur þýtt fjölda íslenskra skáldverka á kínversku.
Verðlaun fyrir árangur í íslenskri málfræði hlýtur Ásbjörg Benediktsdóttir.
Ásbjörg stundar MA-nám í fjarnámi
og hefur gert alla tíð meðfram kennslu. Ásbjörg er búsett í Eyjafirði og stefnir
á að ljúka meistaranáminu 2021. Áhugi Ásbjargar beinist helst að setningafræði og hefur hún upp á síðkastið
verið að skoða nefnifallhneigð í þolmynd.
Í lok dagskrár veittu tveir fræðimenn innsýn í máltækni.
Eiríkur Rögnvaldsson reið á vaðið með því að segja frá stöðunni í Verkáætlun í máltækni 2018–2022 og frá nýrri skrifstofu CLARIN á Íslandi og verkefnum henni tengdri.
Anna Björk Nikulásdóttir fræddi fundarmenn um gervigreind og nytsemi hennar.
Staða íslenskunáms við HÍ
Mikil breyting hefur orðið á stöðu íslenskunnar við Háskóla Íslands á síðustu árum. Sprenging hefur orðið í fjölda þeirra sem stunda íslensku sem annað mál undanfarin misseri. Nemendum sem leggja stund á íslensk fræði, bæði bókmenntir og málfræði, hefur heldur fækkað á undanförnum árum. Vonir standa til að sá mikli meðbyr sem er með íslenskri tungu um þessar mundir snúi þeirri þróun við.
Viðgerð Flateyjarbókar viðamesta verkefni undanfarinna ára
Helstu verkefni Vinafélags Árnastofnunar undanfarin ár hafa verið fjáröflun vegna viðgerðar á handriti Flateyjarbókar, eins merkasta handrits Íslendinga, og stendur sú viðgerð nú yfir. Talið er að hún muni kosta á bilinu 5–7 milljónir króna þegar allt er talið. Þá hefur félagið unnið að undirbúningi heimildarmyndar um Flateyjarbók, tilurð hennar og sögu og fjármagnað kvikmyndatökur af viðgerð bókarinnar en þær myndir sem þar fást veita einstaka sýn á það hvernig hægt er að halda við menningarverðmætum eins og þessum. Þá stóð félagið í samstarfi við stofnunina m.a. fyrir myndvarpagjörningi á Vetrarhátíð í fyrra og varpaði nokkrum íslenskum nýyrðum tengdum tölvutækni á húsvegg atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Skúlagötu. Gjörningurinn fékk styrk úr Málræktarsjóði.
Um Vini Árnastofnunar
Vinafélag Árnastofnunar var stofnað síðasta vetrardag árið 2016. Félagar eru tæplega 500 talsins. Félaginu er ætlað að styðja við starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og halda á lofti margþættu hlutverki hennar á sviði íslenskra fræða, m.a. með því að styrkja skýrt afmörkuð verkefni á vegum stofnunarinnar, standa að viðburðum og veita árlega viðurkenningu til meistaranema við háskóla.
Félagsmenn telja að Stofnun
Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé ein af grunnstoðum íslenskrar menningar
og beita sér fyrir því að handritin, helstu menningarverðmæti þjóðarinnar, sem
eru á heimslista UNESCO yfir Minni heimsins, verði gerð að hluta til sýnileg
almenningi. Félagið er opið öllum þeim sem láta sig starfsemi stofnunarinnar
varða og er gjaldfrjálst að gerast félagi á vefsíðu félagsins .