Handritin - veskú er fyrsta stóra verkefni Vinafélagsins

21.4.2021

Vinir Árnastofnunar hafa staðið fyrir gerð sjónvarpsþáttar um handritamálið. Formaður stjórnar, Kristján Kristjánsson, hefur unnið hörðum höndum ásamt starfsfólki RÚV og Árnastofnunar að því að fullgera verkið.

Handritin-veskú

Þar sem fyrstu íslensku miðaldahandritin komu heim frá Danmörku 21. apríl 1971 er vel við hæfi að sýna þáttinn á 50 ára afmæli þessa menningarviðburðar. Þúsundir manna á öllum aldri fögnuðu heimkomunni á hafnarbakkanum. Þátturinn verður sýndur að kvöldi sumardagsins fyrsta kl. 19.40.

Í þættinum verður saga heimkomu handritanna sögð með því að heyra margar ólíkar raddir, bæði íslenskar og danskar, sem rekja ástæður þess að það tók frændþjóðirnar langan tíma að semja um hvar þau skyldu varðveitt.

Flateyjarbok

Nú þegar helmingur handritasafns Árna Magnússonar hefur verið á Íslandi í hálfa öld er einnig horft til framtíðar og spurt hvaða vitnisburð handritin geyma fyrir komandi kynslóðir.