Aðalfundur Vina Árnastofnunar

18.5.2021

Stjórn vinafélags Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Vina Árnastofnunar, boðar til aðalfundar mánudaginn 31. maí 2021.

Fundurinn hefst kl. 17 í Safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg. Skráðir félagar eru hvattir til að mæta.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Fundarstjóri verður Andri Árnason.

Af starfi vinafélagsins er þetta helst að frétta:

  • Styrkur fékkst úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur 15. apríl. Sótt var um styrkt til að halda áfram vinnu við orðaleikinn Spagettí sem áður hafði fengið styrk úr Málræktarsjóði og var vinna við hann komin nokkuð á veg. Styrkfé að upphæð 600.000 krónur verður nýtt til að þróa leikinn áfram, opna hann og kynna á viðeigandi hátt í góðu samstarfi við Árnastofnun.
  • Kristján Kristjánsson formaður, með fulltingi stjórnarinnar, stóð að gerð heimildamyndarinnar Handritin – veskú sem fjallar um Handritamálið. Myndin var gerð í samstarfi við Rúv ohf. og var sýnd að kvöldi sumardagsins fyrsta 22. apríl í tilefni þess að þá voru liðin 50 ár frá því að fyrstu miðaldahandritin komu heim frá Danmörku. Myndina má enn sjá á vefRÚV .
  • Heimasíðan www.vinirarnastofnunar.is lifir góðu lífi og er reglulega uppfærð af dyggum félaga, Þórarni Friðjónssyni. Þar má t.a.m. gerast félagi, lesa fréttir af starfinu og kynna sér tilgang félagsins.