Um félagið

Vinir Árnastofnunar er félag sem ber hag Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sérstaklega fyrir brjósti.

Félagið er opið öllum þeim sem láta sig starfsemi stofnunarinnar varða.

Tilgangur félagsins er að styðja við starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og halda á lofti margþættu hlutverki hennar á sviði íslenskra fræða.

Tilgangi sínum hyggst félagið meðal annars ná með því að styrkja skýrt afmörkuð verkefni á vegum stofnunarinnar, standa að viðburðum og veita árlega viðurkenningu til meistaranema við háskóla.

Félagsmenn telja að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé ein af grunnstoðum íslenskrar menningar. Því er nauðsynlegt að stofnuninni sé gert kleift að hlúa að einstökum gagnasöfnum hennar og bæta aðgengi almennings að þeim.

Félagsmenn telja einnig mikilvægt að helstu menningarverðmæti þjóðarinnar, handritin sem eru á heimslista UNESCO yfir Minni heimsins, séu gerð aðgengileg og sýnileg almenningi.